Frá duftinu til duftsins
Hér veit ég ekki mun á efni og anda,
því eyðiþögnin sjálf ber rödd míns hjarta.
Í dagsins hóp ég eigra um svarta sanda.
Hér sé ég innri veröld nýja og bjarta.
Í smásjá hugans lít ég sömu leiki
í ljóskonungsins tafli um alla geima.
Hver duftsins ögn er bygging heilla heima
með himna segulmætti og stjarnareiki.
Einar Benediktsson: Stórisandur
Því að sál vor er beygð í duftið, líkami vor loðir við jörðina.
Sálmarnir: 44, 25
Þegar við hugleiðum óendanleikann í ríki náttúrunnar þá hættir hugsunin að höndla nokkurn hlutstæðan veruleika og fer ósjálfrátt að flökta um innlönd ímyndunaraflsins. Mörkin á milli hlutveru og hugveru leysast upp í móðu draumalandanna þar sem myndirnar þenjast út okkur verður villugjarnt, því þar duga engin GPS-mælitæki lengur; mælanleikinn er ekki lengur til staðar.
Því vaknar þessi spurning: hvar liggja mörkin þarna á milli, hvar hættir hugurinn að "villast" í löndum dagdrauma okkar og hvar byrjar hinn haldbæri og hlutstæði veruleiki, sem við getum höndlað með mælitækni okkar, þannig að við vitum nákvæmlega hvar við erum stödd í veröldinni og þá um leið hver við sjálf erum í raun og veru?
Gerist þetta kannski á mörkum þeirrar mælitækni sem maðurinn hefur fundið upp til að mæla ómælisvíddir himingeimsins?
Þann 6. apríl síðastliðinn gaf Royal Astronomical Society út fréttatilkynningu þess efnis að stjörnusjónaukinn Spitzer, sem er á ferðalagi í geimnum, hefði náð innrauðum ljósmyndum af tveim plánetum sem eru á sporbraut um sól í stjörnuþokum einhvers staðar langt utan okkar eigin sólkerfis. Þetta voru sagðar fyrstu mælanlegu upplýsingarnar sem fengist hafa frá fyrirbærum utan okkar sólkerfis. Af myndunum gátu vísindamenn hins Konunglega geimvísindafélags greint nýjar stjörnuþokur frá upphafstíma alheimsins1 og innrauðar geislamyndir sýndu að pláneturnar HD 209458b og Tr ES-1 hafa yfirborðshita 727° C. Vandinn er bara sá að þessar upplýsingar eru sagðar nokkuð gamlar, eða frá því tímaskeiði þegar alheimurinn hafði náð 5% af núverandri aldri sínum, og myndu kannski teljast úreltar fréttir af sumum, að minnsta kosti ef við eigum að draga af þessu ályktanir í okkar tímatali. 2
Stóru tíðindin eru hins vegar þau, að samkvæmt þessu virðist nú skammt í að vísindin nái að finna mælanlegar upplýsingar frá upphafi alheimsins eða jafnfel frá því fyrir upphafstíma hans.
Það eru upplýsingar eins og þessar sem fá hugsun okkar til að sundla og kveikja á ímyndunaraflinu um leið. Er mælitækni vísindanna um það bil að ná til endimarka tímans?
Eins og önnur mælitæki, þá er Spitzer stjörnusjónaukinn eins konar framlenging á skynfærum mannsins, ávöxtur tækniafreka mannsandans. Þetta er tæki sem vegur 950 kg, og hefur að geyma sjónspegil úr Beryllium-málmi sem er 85 cm í þvermál. Sjónaukanum var skotið út í geiminn frá Canaveral-höfða í Florida þann 25. ágúst 2003, og hann fór á sporbraut um sólu. Hraði hans er 1 arcsec/sec3. Á jarðneskum mælikvarða er þetta ógnarhraði því hann er sagður fjarlægjast jörðu um 15 miljónir kílómetra á ári, en á mælikvarða alheimsins mun sjónaukinn vera tiltölulega kyrrstæður. Vísindamennirnir vonast til þess að hann muni senda upplýsingar til jarðarinnar allt fram til ársins 2008, og miðað við þann árangur sem þegar hefur náðst er ekki óhugsandi að hann muni á þessum tíma ná að færa okkur mælanlegar upplýsingar sem eiga rætur sínar í tilurð alheimsins, eða jafnvel frá því fyrir þann atburð. Ef slíkar upplýsingar kæmu fram hefðu vísindin væntanlega náð að höndla handanveruna, það sem er handan við alheiminn.
Stóra spurningin er þá hvort maðurinn sé að nálgast það að geta höndlað handanveruna með skynfærum sínum og þeim framlengingum sem þau hafa orðið sér út um?
Eitt af því sem gerir manninn frábrugðinn öðrum lífverum á jörðinni er sú staðreynd að hann umbreytir skynjunum sínum í myndir. Dýrin og jurtirnar skynja ljós og myrkur, hita og kulda, þurrk og raka, mýkt og hörku efnisheimsins, rétt eins og maðurinn, en þau bregðast við þessum áreitum af eðlishvöt. Líffræðilegar og sögulegar rætur myndanna, tungumálsins, goðsagnanna og vísindanna sem maðurinn hefur búið til og stuðst við til þess að skilja skynáreiti efnisheimsins, liggja án efa í eðlishvötunum, rétt eins og hjá öðrum lífverum, en með tilkomu siðmenningar hafa eðlishvatirnar orðið að víkja fyrir myndunum sem fylla drauma okkar og liggja til grundvallar tungumálinu og þar með tækninni líka. En eins og segir í Sálmum Davíðs, þá er "sál vor beygð í duftið og líkami vor loðir við jörðina". Skynjanir okkar og vitund eiga sér efnislegan uppruna og stóra spurningin verður þá hvernig það undur gat gerst í alheimi, að hann fór að gera sér mynd af sjálfum sér og skapa það sem við köllum mannlega vitund um heiminn og eigið sjálf.
Við vitum öll að guðfræðin á sín svör við þessu: samkvæmt henni var heimurinn skapaður úr engu og maðurinn úr dufti hans, en svo fékk maðurinn þá forgjöf umfram aðrar lífverur að í efnislíkama hans var blásið anda. Andi þessi kom frá Skaparanum sem var utan við heiminn, frá handanverunni. Samkvæmt þessari hugmynd á mannsandinn sér ekki efnislegar rætur í þessum heimi, heldur liggja rætur hans í handanverunni og hann hefur aðeins tímabundna viðdvöl í efnislíkamanum áður en hann hverfur á vit skapara síns á ný, yfir í handanheiminn. Þannig hefur guðfræðin og stór hluti vísindanna skilgreint muninn á efni og anda, sál og líkama.
Efnishyggja samtímans segir okkur hins vegar að heimurinn hafi skapað sjálfan sig, að hann hafi í rauninni alltaf verið til og að ekki sé um neina handanveru að ræða og engan annan heim en þann sem er, hér og nú. Að mannsandinn sé orðinn til úr duftinu sjálfu og hverfi síðan aftur til uppruna síns. Í því ljósi verður það þeim mun merkilegra þegar við verðum hér og nú vitni að því í gegnum sjónauka hvað var að gerast þegar alheimurinn hafði einungis lifað 5% af núverandi æviskeiði sínu og eygjum þá um leið möguleika þess að sjá enn lengra aftur í tímann. Hvað merkja slíkar staðhæfingar?
Í fyrsta lagi virðast þær fela í sér að vísindamennirnir hafi á grundvelli einhvers mælanleika þegar tímasett upphaf alheimsins eða sköpun hans. Einnig þetta er svimandi hugsun sem fær okkur til að dreyma. Um leið og við skilgreinum upphaf tímans, þá erum við að skilgreina það sem á undan var, sem er ekki-tími, eitthvað sem hlýtur að vera ómælanlegt. Upphaf tímans er samkvæmt skilgreiningunni ómælanlegt hugtak. Á undan tímanum var ekkert, en ekkert er ekki til nema það sé eitthvað. Hugsun okkar nær ekki utan um það sem var áður en tíminn varð til. Ekki frekar en hún geti höndlað endalok tímans. Þau verða eingöngu til í goðsögulegum táknmyndum og draumsýnum heimsendaspámannanna. Í raun getum við ekki haft annan mælikvarða á tímann en líkama okkar sjálfra, þennan líkama sem var annar í gær en hann er í dag og verður annar á morgun. Það er í líkama okkar sem við skynjum gang himintunglanna og sólarupprás sérhvers nýs dags. Gangur sólar er skráður í innbyggða klukku líkamans. Tíminn er hins vegar ekki mælanlegt fyrirbæri eins og hver annar hlutur sem við virðum fyrir okkur. Hann er umfram allt upplifun, reynsla. Endalok tímans er persónuleg reynsla sem tengist því þegar lífið slokknar og líkaminn hverfur til duftsins. Atburður sem er stöðugt að gerast og er eitt af grundvallarlögmálum lífsins.
Þegar við setjum okkur í spor sjónaukans Spitzers og þykjumst sjá fyrir okkur upphaf tímans á endamörkum heimsins, þá er eins og við séum sjálf komin út úr þessum heimi og getum horft á hann utanfrá. Frá handanheiminum. En sjónaukinn Spitzer, sem sendir okkur myndir af upphafi tímans, er ekki af öðrum heimi, ekki frekar en líkami okkar eða hugsun. Stjörnuævintýrið um upphaf tímans í fjarlægum stjörnuþokum er stórbrotinn skáldskapur þess huga og líkama sem hugsar sér myndina af heiminum eins og hann væri ekki þátttakandi í honum sjálfur. Horfir á það úr fjarlægð og utan tímans hvernig tíminn verður til. Við þurfum ekki annað en að klípa okkur í lærið, og þá finnum við að tíminn, hinn skynjanlegi tími, er hér og nú og hvergi annars staðar. En Ævintýrið um stjörnuþokurnar og upphaf tímans er engu að síður heillandi og fagurt eins og allur sá dularfulli og skáldlegi sannleikur sem lýsir fagurskært með fjarveru sinni.
Ef efnisheimurinn hefur alltaf verið til og endurskapað sjálfan sig í sífellu og ef hugsun okkar er órjúfanlega tengd efnisheiminum í gegnum líkamann, þá er hugsun okkar um leið stærsta ráðgáta efnisheimsins, vegna þess að hún sýnir okkur hvernig heimurinn hefur getað gert mynd af sjálfum sér. Mannshugurinn endurskapar heiminn í myndum sínum á sérhverjum tíma. Sérhver mynd okkar af heiminum er jafnframt mynd af okkar eigin líkama og okkar eigin hugsun. Það á líka við um hinnar innrauðu ljósmyndir Spitzers frá upphafi tímans í öðrum sólkerfum.
Þeir sem halda því fram að Spitzer færi okkur "hlutlæga" mynd af heiminum í sinni mælanlegu mynd virðast standa í þeirri trú að efnisheimurinn eigi sér þá innrituðu forskrift og örlög og þann eina tilgang að svara skynfærum mannsins og þeim spurningum sem honum þóknast að spyrja á grundvelli þess mælanleika sem þau hafa tileinkað sér. En mælanleiki heimsins er ekki allur þar sem hann er séður.
Þegar ég leiði augu mín nú af svörtu lyklaborði tölvu minnar út um gluggann og út í skjannabirtu hins ískalda íslenska heimskautavors, þar sem endurskin sólar af fannhvítum þökum ber við heiðbláan himinn og þar sem kræklótt reynitréin teygja sig upp úr malbikinu, tekinn að þrútna og roðna af kalli tímans, þá vaknar þessi spurning: hvar eru dúfur æsku minnar, þær dúfur sem eitt sinn kúrðu í reykvískum þakrennum og svöruðu kalli tímans með korrandi söng á vorin? Hver getur mælt þessa minningu tímans og eftirsjá?
Þessi texti er skrifaður í apríl 2005 eftir heimsókn á vinnustofu Húberts Nóa og í tilefni sýningar hans í Gallerí Terpentine í Reykjavík.
Ólafur Gíslasson
1 Geimvísindamaðurinn Laurence Eyles segir stjörnuþokur þessar vera 300 miljón ára gamlar, en þó frá upphafstíma alheimsins. Sjá Sjá http://www.astro.ex.ac.uk/people/bunker/spitzer/Spitzer.html.
2 "The real puzzle is that these galaxies seem to be already quite old when the Universe was only about 5 per cent of its current age… This means star formation must have started very early in the history of the Universe - earlier than previously believed." segir Professor Richard Ellis of Caltech (Spitzer Science Center), Sjá http://www.astro.ex.ac.uk/people/bunker/spitzer/Spitzer.html
3 1 arcsec er samkvæmt skilgreiningu 1/3600 úr sekúndu á 360 gráðu baugi himinhvolfsins